Hvað er núvitund?

Með núvitund veitum við því sem er að gerast fulla athygli á meðan það er að gerast og tökum á móti því með opnum huga, mildi og forvitni. Við þjálfum athyglina og aukum meðvitund okkar um það sem er að gerast innra með okkur og í umhverfinu.

Við gerum það með því að vera andlega og líkamlega til staðar. Við þjálfum okkur í núvitund með því að veita hugsunum okkar, tilfinningum og skynjun líkamans fulla athygli ásamt því að taka eftir því hvernig við bregðumst við. Við virkjum skynfærin og veitum upplifun okkar í gegnum þau fulla athygli.

Ávinningurinn er skýrari sýn á okkur sjálf, fólkið í kringum okkur og lífið sjálft.

Með núvitund erum við ekki að reyna að ná fram einhverju sérstöku, komast á einhvern stað eða upplifa eitthvað sérstakt! Við erum að veita því athygli sem er að gerast og tengja við það sem er nú þegar til staðar. Hins vegar gætum við tekið eftir því að allt tekur stöðugum breytingum.

Núvitund er athyglisþjálfun og er ekki tengd trúarbrögðum. Þú getur þjálfað þig í núvitund sama hvort þú tilheyrir einhverjum trúarbrögðum eða ekki.

Stundum er talað um núvitund sem vasaljós athyglinnar, að við æfum okkur í því að beina vasaljósinu að því sem við viljum skoða hverju sinni. Það geta verið verkefnin sem þú ert að sinna í daglegu lífi eða að þú beinir vasaljósinu að því hvernig þér líður og hvað er að bærast innra með þér.